Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1230  —  462. mál.




Nefndarálit



um frv. til raforkulaga.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Helga Bjarnason og Kristínu Haraldsdóttur frá iðnaðarráðuneyti, Þorkel Helgason frá Orkustofnun, Svein Hannesson frá Samtökum iðnaðarins, Hannes Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja hf., Eirík Bogason frá Samorku, Friðrik Sophusson, Bjarna Bjarnason og Þórð Guðmundsson frá Landsvirkjun, Ólaf Eggertsson frá Landssambandi raforkubænda, Franz Árnason frá Norðurorku hf., Guðmund Þóroddsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Kristján Haraldsson frá Orkubúi Vestfjarða hf., Kristján Jónsson og Eirík Briem frá Rafmagnsveitum ríkisins og Þórð Skúlason og Jón Jónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir um málið frá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Akraneskaupstað, Hitaveitu Suðurnesja hf., Selfossveitum, Alcan á Íslandi hf., RARIK, Norðurorku hf., Akureyrarbæ, Byggðastofnun, Samorku, Samtökum raf-, hita- og vatnsveitna, Orkubúi Vestfjarða hf., Orkustofnun, Löggildingarstofu, Landsvirkjun, Reykjavíkurborg, Orkuveitu Reykjavíkur, Orkuveitu Húsavíkur, Alþýðusambandi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Umhverfisstofnun, Hafnarfjarðarbæ og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Það byggist á nýjum viðhorfum í raforkumálum sem hafa rutt sér til rúms víða um heim á undanförnum árum, þ.e. að skilja á milli einkasöluþátta rafkerfisins (flutnings og dreifingar) og þeirra þátta þar sem samkeppni verður við komið (vinnslu og sölu). Þá er frumvarpinu ætlað að koma til móts við tilskipun Evrópusambandsins um innri markað raforku, 96/92/EB, sem varð hluti af EES-samningnum með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar frá 26. nóvember 1999.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu er varða m.a. bókhaldslegan aðskilnað, grundvöll arðsemisútreikninga og eftirlit og eru þessar helstar:
          1.      Lagðar eru til breytingar á orðalagi frumvarpsins um tilgang bókhaldslegs aðskilnaðar sem gat leitt til þess að greinin yrði skýrð of þröngt. Með henni er ætlunin að gera þær kröfur að greint sé á milli vinnslu og sölu í bókhaldi en ekki eingöngu á milli samkeppnis- og sérleyfisþátta.
          2.      Eftir að EBIT er tekið upp sem arðsemisviðmið á fjármagnskostnaður ekki lengur heima í tekjuramma. Lagðar eru til breytingar á grundvelli arðsemi þar sem eiginfjárviðmið er of óljóst og flókið og af því leiðir að gera verður breytingar á arðsemisrammanum. Þá er nauðsynlegt að kveða nánar á um tekjumörk í reglugerð.
          3.      Mikilvægt er að opinbert eftirlit sé í lágmarki og að treyst sé á innra eftirlit eins og kostur er. Lagt er til að eftirlitsskyldir aðilar geti tjáð sig um eftirlitið og þróun þess og með því haft áhrif þar á.
          4.      Rétt þykir að leggja höfuðáherslu á að eftirlit með gæðum og afhendingaröryggi byggist nú á innra eftirliti orkufyrirtækjanna. Orkustofnun getur falið faggiltum skoðunarstofum athuganir á þessu innra eftirliti en þær sinna nú sambærilegum verkefnum á sviði rafmagnsöryggismála.
          5.      Lagt er til að gjaldtaka við eftirlit verði lækkuð. Kostnaður við eftirlit Samkeppnisstofnunar og umsýslu ráðuneytis og kærunefndar greiðist úr ríkissjóði. Þá var kostnaður við eftirlit með gæðum og afhendingaröryggi ofáætlaður. Gjald sem innheimt er á grundvelli greinarinnar á þá eingöngu að standa undir eftirliti Orkustofnunar. Er rétt að fyrirtækin geti fylgst með og tjáð sig um hvernig sá kostnaður verður til og þróast.
          6.      Lagðar eru til breytingar sem eiga að tryggja að gjald skv. 33. gr. hækki í eðlilegu samræmi við aukna vinnu við útgáfu leyfa.
          7.      Lagðar eru til breytingar sem eiga að leiða til þess að fyrirtækin setji fyrst fram tillögu um hvernig bókhaldslegur aðskilnaður verði framkvæmdur en Orkustofnun grípi inn í einungis ef skiptireglur fyrirtækjanna eru óeðlilegar með hliðsjón af markmiðum aðskilnaðarins.
          8.      Lagt er til að tímamörk til að skila drögum um bókhaldslegan aðskilnað séu framlengd þar sem tímamörk frumvarpsins þykja of knöpp.
          9.      Lagt er til að flutningslínur á 66 kV spennu teljist til flutningskerfisins.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Pétur H. Blöndal var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2003.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Árni R. Árnason.



Kjartan Ólafsson.


Ólafur Örn Haraldsson.